mánudagur, 22. desember 2008

DV hótar lögreglu en lýgur um leið í blaðinu

Félagarnir á DV eru duglegir að grafa sína eigin gröf. Hamagangurinn að "skúbba" er svo mikill að þeir hafa ekkert fyrir því að kanna áreiðanlegar heimildir fyrir því slúðri sem þeir lepja upp hjá bloggurum á netinu frekar en fyrri daginn.

Okkur var að berast hótun frá Gunnari Inga Jóhannssyni hdl hjá Lögmönnum Höfðabakka þar sem hann krefst þess að hér verði birt afsökunarbeiðni undir nafni til útgefanda DV. Við erum með skilaboð til þessa ágæta lögmanns og segjum að hætti Steingríms J: "Éttu ann sjálfur!"

Sama dag og okkur berst hótunarbréf lögmanns DV birtir blaðið það endemis rugl á baksíðu að Sorprit.com tengist síðunni forsetakosningar.is í gegnum IP tölur. Þótt við hefðum ekkert á móti að tengjast þeirri ágætu síðu, þá á þetta bara ekki við rök að styðjast. Eitt dæmið í viðbót um lygarnar í DV, jólabrandari sem á ekki við rök að styðjast.

Hér á Sorprit.com hefur nákvæmlega ekkert ólögmætt verið birt og engar ærumeiðingar hafðar frammi gegn einstökum persónum, engu logið uppá einn eða neinn, ólíkt því sem háttur er hjá sorpritinu DV á Íslandi.

Um leið og við birtum þetta endemis hótunarbréf DV hvetur Sorprit.com sorpritstjórana á DV að upplýsa þjóðina um hver það er sem situr í skugganum og kippir í spotta hjá blaðinu. Einnig skorum við á lögmenn DV að taka til í eigin glerhúsi áður en þeir henda fleiri steinum. Sérstaklega er lögmanninum bent á DV-malefnin.com sem er vefur rekinn af DV undir nafnleysi eða dulnefni fyrir Gróurotturnar á Leiti.

Gunnar Ingi Jóhannsson
To: dv@sorprit.com
Ágæti viðtakandi
Undirritaður er lögmaður Birtings útgáfufélags ehf., útgefanda dagblaðsins DV. Bréf þetta er sent þér sem forsvarsmaður vefsíðunnar www.sorprit.com. Á vefsíðunni er að finna áróður og hótanir gegn útgefanda DV og fyrirtækjum sem auglýsa í blaðinu, sem og ærumeiðandi aðdróttanir gegn nafngreindum og ónafngreindum einstaklingum. Efni síðunnar brýtur gegn mörgum lagaákvæðum, m.a. almennum hegningarlögum, nr. 19/140. Efni síðunnar varðar samkvæmt því við lög og er birting þess refsiverð. Efni síðunnar hefur verið kært til lögreglu. Þá hafa að undanförnu borist sendingar á faxi til fyrirtækja sem auglýst hafa í DV, þar sem viðkomandi fyrirtækjum er hótað ef þau auglýsa í DV. Háttsemi þessi er einnig refsiverð, sem og skaðabótaskyld gagnvart útgefanda DV. Forsvarsmenn vefsíðunnar þurfa ekki að velkjast í vafa um að leitað verður ýtrustu úrræða á hendur þeim, bæði hvað varðar refsi- og skaðabótaábyrgð og verður slíkt mál sótt fyrir dómstólum eftir því sem þurfa þykir.
Rétt er að upplýsa að síðustu daga hefur staðið yfir rannsókn á því hvaða aðili standi að baki vefsíðunni. Telja verður að það sé nú upplýst með óyggjandi hætti hvaða aðili það er, sem stendur að baki vefsíðunni og þeim sendingum sem borist hafa auglýsendum DV, enda er tiltölulega einfalt mál að rekja IP-tölur vefsíðunnar og faxnúmer sendanda. Þessum upplýsingum hefur nú verið komið til lögreglu, svo auðveldara sé fyrir lögreglu að rannsaka þessa refsiverðu háttsemi yðar.
Er hér með skorað á yður að fjarlægja allt efni af vefsíðunni sem nú er á henni og birta þar afsökunarbeiðni, undir nafni, bæði til útgefanda DV, sem og gagnvart þeim fyrirtækjum sem hótað hefur verið. Jafnframt skal þar birt leiðrétting þess efnis, að ekki standi til að beita fyrirtæki sem auglýsa í DV neinum aðgerðum. Skal þetta gert innan sólarhrings. Áskilinn er réttur til málshöfðunar vegna skaðabótaskyldrar háttsemi yðar gagnvart útgefanda DV.
Kveðja / Best regards, Gunnar Ingi Jóhannsson hdl. / Attorney at Law, LÖGMENN HÖFÐABAKKA / ATTORNEYS AT HOFDABAKKI, Höfðabakki 9, 6.hæð, 110 Reykjavík / Iceland